LÍNUDANS

Hvað gera bændur þegar orkufyrirtækin og stóriðjan ætla að leggja risavaxna háspennulínu yfir lönd þeirra og skeyta engu um náttúruna og lífsgæði íbúanna? Árið 2012 hófst baráttan gegn ofureflinu í gömlu fjárhúsi í Skagafirði.

Línudans –  heimildarmynd eftir Ólaf Rögnvaldsson

Hvað gera bændur þegar orkufyrirtækin og stóriðjan ætla að leggja risavaxna háspennulínu yfir lönd þeirra og skeyta engu um náttúruna og lífsgæði íbúanna?
Árið 2012 hófst baráttan gegn ofureflinu í gömlu fjárhúsi í Skagafirði. En hvaða möguleika á venjulegt fólk gegn vel skipulögðum hagsmunum og fjármagnsöflum? Og hvað gerist ef samstaðan brestur?

Línudans er heimildarmynd um andstöðu bænda, landeigenda, náttúruverndarsinna og fólks sem stundar ferðaþjónustu gegn hugmyndum Landsnets um byggingu Blöndulínu 3, 220kv loftlínu sem liggja á frá Blönduvirkjun í Húnavatnshreppi um Vatnsskarð yfir í Skagaförð, þaðan um Öxnadalsheiði, niður Öxnadal og Hörgárdal til Akureyrar.

Sagan hefst vorið 2012, um það leyti sem Landsnet gaf út frummatsskýrslu um byggingu Blöndulínu. Hún fylgir nokkrum einstaklingum í Skagafirði, Öxnadal og Eyjafirði sem hafa farið í fylkingarbrjósti og hvatt til samstöðu meðal sveitunga sinna gegn áætlun Landsnets og tekist að tefja framkvæmdina verulega, auk þess að leggja til mikilvægar upplýsingar um lagningu stórra jarðstrengja sem valkost við loftlínur.

Um leið hefur myndin víðari skírskotun. Sú orrusta sem hér er háð er aðeins ein af ótal orrustum í stríðinu um náttúru Íslands. Nýverið hefur Blöndulínu 3 verið stillt upp sem valkost við hugmyndir Landsnets um línu þvert yfir Sprengisand, línu sem myndi kljúfa í sundur stærsta ósnortna náttúruvíðerni Evrópu.

Myndin fjallar um þá grundvallarspurningu hvort rétt sé að fórna ásýnd landsins og náttúrugæðum, sem fjöldi einstaklinga og fyrirtækja nýtir nú þegar í margskonar atvinnurekstri, fyrir ágóða erlendra stórfyrirtækja. Digurbarkalegar yfirlýsingar ráðamanna um að nú skuli hjólum atvinnulífsins snúið í gang hljóma gjarnan þegar stóriðjuna ber á góma – þrátt fyrir þá staðreynd að ferðaiðnaðurinn sé orðin stæsta atvinnugrein landsins.

Scroll to Top